Maðurinn sem uppgötvaði lækningamátt Bláa lónsins er látinn

Fjölmargir vilja heiðra minningu Vals Margeirssonar – Hafa stofnað styrktarreikning vegna útfararinnar

Sá fyrsti sem baðaði sig upp úr lóninu í Grindavík og sá fyrsti sem kallaði svæðið Bláa lónið.
Valur Margeirsson Sá fyrsti sem baðaði sig upp úr lóninu í Grindavík og sá fyrsti sem kallaði svæðið Bláa lónið.

Einn af brosmildustu mönnum Reykjanesbæjar, Valur Margeirsson, er látinn 66 ára að aldri. Valur var vinamargur en búið er að stofna minningarsíðu í nafni hans á Facebook.

Valur uppgötvaði lækningamátt lónsins árið 1981.
Bláa lónið Valur uppgötvaði lækningamátt lónsins árið 1981.
Mynd: © Róbert Reynisson

„Ég fann svo afskaplega mikið til með fólkinu hans þegar hann Valur lést og mig langaði að stofna þessa síðu til þess að minnast hans og um leið heiðra minningu hans,“ segir Sigrún Dóra Jónsdóttir.

Valur rak lengi vel verslun við Fitjar í Njarðvík en viðskiptavinir hans muna ávallt eftir brosinu hans og þjónustulundinni sem var á heimsmælikvarða. Sigrún Dóra segir Val hafa verið einstakan mann sem snerti alla.

„Ég hef upplifað undanfarna daga svolítið sérstaka tilfinningu, þar sem ég og mín fjölskylda höfum tekið það verulega mikið nærri okkur að hann Valur sé farinn. Maður sem var okkur ekki tengdur fjölskylduböndum eða vinaböndum en var okkur samt svo kær.“

Uppgötvaði lækningamáttinn 1981

Þeir íbúar á Suðurnesjum sem þekkja til sögu Vals vita að hann er sá sem uppgötvaði lækningamátt Bláa lónsins fyrir mörgum árum, löngu áður en baðstaðurinn opnaði.

Valur, sem sjálfur glímdi við psoriasis-húðsjúkdóminn, var sem sagt fyrsti Íslendingurinn sem dýfði sér ofan í bláleita vatnið í Grindavík. Í aðsendri grein í Víkurfréttum fór Valur yfir söguna um tilurð Bláa lónsins. Hann segist hafa viljað kanna lækningamátt þessa affallssjávar sem vall upp úr iðrum jarðar: „Á þeim tíma sögðu menn að ég hlyti að vera kolbrjálaður að ætla mér að taka þennan mikla sjéns og fara að baða mig í þessum “drullupolli” eins og yfirlæknirinn orðaði það, en það var í byrjun september 1981.“

Enginn vildi hleypa honum ofan í

Valur segir í innsendu greininni að í fyrsta lagi hafi botninn verið stórhættulegur vegna hvassra og beittra hraunnibba sem auðveldlega hefðu getað skaðað mann og í öðru lagi gætu ýmis eiturefni verið í þessum legi sem gætu verið stórskaðleg heilsunni, auk þess sem hitastigið væri mjög sveiflukennt og gætu menn því brennt sig alvarlega.

„Enginn vildi hleypa mér þarna ofan í og varð ég að fá sérstakt leyfi frá þáverandi hitaveitustjóra Ingólfi Aðalsteinssyni sem í upphafi neitaði mér alfarið um þessa “fífldjörfu ævintýramennsku” eins og hann orðaði það, enda hefðu menn forðast að komast í snertingu við þennan lög. En ég gafst ekki upp og að lokum samþykkti hitaveitustjórinn að líta í hina áttina, en þetta yrði alfarið á mína eigin ábyrgð. Það var því talsverð spenna meðal starfsmanna Hitaveitunnar, þegar ég mætti í fyrsta skipti til að baða mig, enda höfðu þeir á orði að ég væri sá fyrsti sem reyndi þessa böðun,“ segir Valur í greininni en hann fann mikinn mun á sér eftir að hafa baðað sig.

Fann mun eftir þrjá daga

„Svo ég geri langa sögu stutta að þá fann ég strax að þarna hafði eitthvað merkilegt átt sér stað. Mig hætti t.d. að klæja á 3ja degi og áður en mánuðurinn var liðinn var ég nánast blettalaus. Eitthvað sem ég hafði ekki verið, frá því að ég fékk sjúkdóminn á unga aldri.“

Valur minnist þess þegar yfirlæknir húðdeildarinnar á Landspítalanum tjáði sig um baðferðir hans sem hann sagði að hefði engin áhrif enda væri þetta bara „drullupollur.“ Þennan drullupoll kallaði Valur „Bláa lónið“ í viðtali við Vísi á sínum tíma en þá vildi blaðamaður forvitnast um „kraftaverkið“ sem hefði átt sér stað.

„Ég man að þessi ungi fréttamaður, vildi endilega kalla þetta svæði einhverju nafni, það hljómaði svo miklu betur í fréttinni, eins og hann orðaði það. Ég tjáði honum að þessar hitaveituframkvæmdir væru undir fjallinu Þorbirni, en ég kallaði sjálfan pollinn, Bláa lónið, því það var svo fagurblátt. Þarna kemur þetta orð í fyrsta skipti fram á prenti. Greinilega hefur mönnum litist vel á þetta nafn, því hún festist við staðinn eftir að ég hafði gefið staðnum þessa nafngift.“

En Valur var ekkert að státa sig af þessu og því hefur hin sanna saga af uppgötvun lækningarmáttar Bláa lónsins glatast með tímanum. Valur lauk yfirferð sinni á sögunni um tilurð lónsins með þessum orðum:

„Með þessum orðum mínum er ég hvorki að státa mig af þessu né að agnúsast yfir áframhaldandi uppbyggingu við Bláa lónið fyrir psoriasis-sjúklinga, síður en svo. Mér finnst hinsvegar þegar menn á tyllidögum sem þessum eru að rifja upp tilurð Bláa lónsins þar sem verið er að eigna hinum og þessum heiðurinn af því að hafa uppgötvað þennan lækningamátt, að þá megi sannleikurinn fá að njóta sín.“

Valur Margeirsson starfaði þó aldrei fyrir Bláa lónið eða hagnaðist á lækningamætti þess.

Styrktarreikningur vegna útfararinnar

„Ég vill heiðra hann og hans minningu og ég veit það eru fleiri sem vilja gera það sama,“ segir Sigrún Dóra sem vill vekja athygli á styrktarreikning sem hefur verið stofnaður fyrir fjölskyldu Vals.

„Ég hef fengið leyfi Ástu, dóttur Vals með að setja hér inn reikningsnúmer hennar fyrir þá sem vilja aðstoða við útlagðan kostnað vegna útfarar Vals. Í skýringu er best að setja: "Í minningu Vals" ef að eftir stendur einhver sjóður eftir útförina mun fjölskylda hans vafalaust nýta hann á einhvern hátt til að halda minningu þessa yndislega manns á lofti.“

Kt: 050169-3249
RN: 0142-05-005517

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.