Starfsfólk leikskóla hélt skyggnilýsingarfund

Bæjarstjórinn í Vogum vill fá miðilinn til að aðstoða við gerð fjárhagsáætlunar

Miðlar telja sig geta haft samband við þá sem hafa farið yfir móðuna miklu.
Trúir þú á líf eftir dauðann? Miðlar telja sig geta haft samband við þá sem hafa farið yfir móðuna miklu.
Mynd: © DV ehf / Stefán Karlsson

Starfsfólk leikskólans í Vogum hélt fjáröflun í gærkvöldi vegna fyrirhugaðrar námsferðar starfsfólksins árið 2017. Brugðið var á það ráð að halda opinn skyggnilýsingarfund í gær en það var miðillinn Þórhallur Guðmundsson sem stýrði fundinum.

Bæjarstjórinn í Vogum slær á létta strengi í vikulegum pistli.
Ásgeir Eiríksson Bæjarstjórinn í Vogum slær á létta strengi í vikulegum pistli.
Mynd: Vogar.is

Skyggnilýsingar og miðilsfundir hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu og segir bæjarstjóri Voga að sitt sýnist hverjum þegar það kemur að þessu umdeilda málefni.

„Íbúar sveitarfélagsins virðast hins vegar margir hafa áhuga á málefninu því aðsóknin var góð. Góður rómur var gerður að lýsingum Þórhalls sem var sagður hafa farið á kostum og komið fram með margvíslegar vísbendingar um ýmis tengsl við gesti fundarins sem erfitt var að véfengja,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Voga í vikulegum pistli sínum.

Ásgeir íhugar nú að fá Þórhall í hin ýmsu verkefni á vegum bæjarins enda þykir ljóst, miðað við velgengni hans í gær, að sveitarfélagið gæti nýtt „krafta“ hans.

„Bæjarstjóri hefur leitt hugann að því að fá Þórhall til að aðstoða við fjárhagsáætlunargerðina, ekki síst væri nú gott að fá aðstoð við að spá um tekjujöfnunarframlag næsta árs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga,“ segir Ásgeir og bætir við einum broskalli í enda pistilsins.

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.