Ásta Kristín: „Ímyndaðu þér að einhver segi að þú berir hugsanlega ábyrgð á dauða sjúklings“

Ásta Kristín Andrésdóttir ákærð fyrir manndráp af gáleysi í starfi – Tilfinningaþrungið andrúmsloft í héraðsdómi

Ásta Kristín Andrésdóttir er ákærð fyrir manndráp af gáleysi. Vanræksla hennar hafi stuðlað að því að Guðmundur Már Bjarnason lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut.
Þung byrði Ásta Kristín Andrésdóttir er ákærð fyrir manndráp af gáleysi. Vanræksla hennar hafi stuðlað að því að Guðmundur Már Bjarnason lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ímyndaðu þér að vera góð og heiðarleg manneskja sem alltaf reynir að gera sitt besta til að annast aðra. Ímyndaðu þér að einhver segi að þú berir hugsanlega ábyrgð á dauða sjúklings. Þú færð áfall. Það gefur mér mikið að vera góð við aðrar manneskjur. Það er ekki út af laununum sem ég er hjúkrunarfræðingur,“ sagði Ásta Kristín Andrésdóttir sem ákærð er fyrir manndráp af gáleysi í starfi.

Einar Tryggvason, saksóknari málsins, sagði við munnlegan málflutning á fimmtudag að hugsanlega væri framburður vitna ótrúverðugur vegna samhugar í garð Ástu. Hún ætti sér margt til málsbóta en taldi hæfilegt að dæma hana í fjögurra til sex mánaða fangelsi skilorðsbundið. Landspítalann ætti að sekta.
Samhugur Einar Tryggvason, saksóknari málsins, sagði við munnlegan málflutning á fimmtudag að hugsanlega væri framburður vitna ótrúverðugur vegna samhugar í garð Ástu. Hún ætti sér margt til málsbóta en taldi hæfilegt að dæma hana í fjögurra til sex mánaða fangelsi skilorðsbundið. Landspítalann ætti að sekta.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það var spennu- og tilfinningaþrungið andrúmsloftið í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudagsmorgun þegar aðalmeðferð hófst í máli ríkissaksóknara gegn henni. Í helgarblaði DV er farið ítarlega í saumana á málinu. Blaðamaður DV sat aðalmeðferðina.

Ástu er gefið að sök að hafa láðst að tæma loft úr belg barkaraufarrennu þegar hún tók Guðmund Má Bjarnason úr öndunarvél og setti hann á svokallaðan talventil 3. október 2012 með þeim afleiðingum að hann kafnaði.
En miðað við það sem fram kom í máli allra þeirra sem báru vitni í málinu þá skein í gegn að furðu sætti hvers vegna hjúkrunarfræðingurinn væri dreginn fyrir dóm í þessu sakamáli. Saksóknari telur að framburður vitna kunni að stafa af samstöðu heilbrigðisstarfsmanna með Ástu. Málið er einstakt og það fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

„Það gefur mér mikið að vera góð við aðrar manneskjur. Það er ekki út af laununum sem ég er hjúkrunarfræðingur.“

Ásta, sem er svæfingarhjúkrunarfræðingur, kvaðst hafa getað stundað sína vinnu síðan málið kom upp en hún kvaðst ekki fá að taka vaktir, hún fái aðeins að sinna dagvinnu. Hún hafi í gegnum tíðina, líkt og margir heilbrigðisstarfsmenn, stundað að fara til Noregs að vinna en hún gæti það ekki nú. Fyrst og fremst því hún gæti ekki útskýrt það sem gerst hefði. Að vera ákærð fyrir manndráp af gáleysi væri þung byrði.
„Mig hefur oft langað að deyja,“ sagði Ásta og það sást á andliti hennar að hún meinti það sem hún sagði.

Ásta Kristín hafði verið á erfiðri dagvakt á svæfingadeild en sökum manneklu var hún beðin um að taka tvöfalda vakt og vera áfram á kvöldvaktinni á gjörgæsludeild. Þar tók hún við Guðmundi Má sem hafði farið í aðgerð og var vart hugað líf fyrst um sinn eftir hana. Fram kom í máli allra fyrir dómi að hann hefði verið mjög veikburða. Við vaktaskiptin seinnipartinn um daginn kveðst Ásta Kristín hafa fengið afar stutta og snubbótta skýrslu um stöðu og líðan Guðmundar. Fyrsta verk Ástu var að hennar sögn að kynna sig fyrir Guðmundi og eiginkonu hans sem var í heimsókn. En hún taldi mikilvægt að trufla ekki samverustund hjónanna og gat því ekki athugað vaktarann (e. monitor) sem var við rúm sjúklingsins. Bar hún því meðal annars við að hjúkrunarfræðingar væru ekki bara að hjúkra sjúklingum, heldur líka fjölskyldum. Þessi vaktari átti eftir að koma mikið við sögu í aðalmeðferðinni sem og dularfull þögn hans.

Í helgarblaði DV er sem fyrr segir farið ítarlega yfir málið.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.