Leigubílstjórar neita að keyra farþega til Keflavíkur

„Allir leigubílstjórar verða að taka við öllum þeim farþegum sem til þeirra koma“ - Gætu átt von á því að vera reknir í burtu ef þeir neita fólki

Þetta kannast margir við að sjá þegar komið er til landsins. Leigubílstjórar sem bíða eftir farþegum fyrir utan flugstöðina.
Leigubílaröðin Þetta kannast margir við að sjá þegar komið er til landsins. Leigubílstjórar sem bíða eftir farþegum fyrir utan flugstöðina.

Bandarískri konu á fertugsaldri, sem ferðaðist með ungum syni sínum til Íslands í gærmorgun, var neitað um leigubíl frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og niður í Reykjanesbæ.

„Ég var svo reiður að mig langaði bara að hjóla í þennan leigubílstjóra og lesa honum pistilinn“

„Rúnturinn“ þótti of stuttur fyrir viðkomandi leigubílstjóra sem vildi frekar fimmtán þúsund fyrir akstur til Reykjavíkur en 2500 krónur til Keflavíkur. Konan, sem var með tvær stórar töskur og handfarangur, gekk að strætó, leið númer 55, sem keyrir á milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar.

Rétt er að taka fram áður en lengra er haldið að sem betur fer á þetta ekki við um alla leigubílstjóra en eins og fréttin gefur til kynna hefur þetta gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Þar tók á móti konunni Guðmundur Oddbergsson, strætóbílstjóri sem hefur haft akstur að atvinnu í rúm fjörutíu ár.

„Hún spyr mig hvort ég sé að keyra til Keflavíkur og sýnir mér heimilisfang úr bæjarfélaginu. Ég sagði við hana að ég keyri til Keflavíkur en stoppi hjá Nettó. Miðað við heimilisfangið þá var töluverður spölur frá Nettó og á gistiheimilið þannig að ég stakk upp á því að hún tæki leigubíl,“ segir Guðmundur en leiðinlegt veður var í gærmorgun, rok og rigningarsuddi.

Átti að ganga í grenjandi rigningu

„Mér fannst ekki í lagi að hún myndi ganga þetta með son sinn og tvær stórar ferðatöskur í grenjandi rigningu. Hún leit á mig og varð undrandi á svipinn, leit síðan niður og sagði að leigubílstjórinn hafi ekki viljað keyra hana. Ég hélt ég hefði heyrt einhverja vitleysu en það var ekki. Hún meinti þetta innilega. Hann vildi ekki keyra hana og benti henni á að taka bara strætó,“ segir Guðmundur sem á þessum tímapunkti reyndi að aðstoða hana eftir fremsta megni.

„Ég var svo reiður að mig langaði bara að hjóla í þennan leigubílstjóra og lesa honum pistilinn. Ég spurði konuna hvort hún gæti bent á bílinn sem hafið neitað henni um far en hún sagði að hann væri farinn með aðra farþega. Ég er náttúrulega bara strætóbílstjóri og hef ekki tíma í að sinna svona hlutum,“ segir Guðmundur.

Hann dó ekki ráðalaus og ákvað að hafa samband við kollega sína hjá SBK en þeir sjá um almenningssamgöngur innanbæjar í Reykjanesbæ.

Guðmundur sem keyrir strætó á milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar aðstoðaði konuna við að komast á gistiheimilið.
Strætó kom til bjargar Guðmundur sem keyrir strætó á milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar aðstoðaði konuna við að komast á gistiheimilið.

„I love Iceland“

„Hún fékk far hjá mér niður í Nettó í Reykjanesbæ og þar tók á móti hennar annar rútubílstjóri sem keyrði hana upp á gistiheimili,“ sagði Guðmundur sem hitti sömu konuna aftur í morgun.

„Já ég var að keyra í Reykjavík í morgun og hún og sonur hennar komu með. Hún var á leiðinni í Reykjavík að skoða Hallgrímskirkju, Hörpu og gömlu höfnina svo eitthvað sé nefnt. Hún var bara alsæl og það er ekki leigubílstjóranum að þakka.“

Konan var himinlifandi með aðstoð Guðmundar og kollega hans hjá SBK en á leiðinni til Reykjavíkur í morgun benti Guðmundur henni á ýmsa hluti sem hægt væri að skoða í nágrenni Reykjavíkur.

„Ég gleymi því ekki þegar hún gekk út úr strætisvagninum í Reykjavík í morgun. Hún brosti til mín og sagði „I love Iceland.“

En af hverju neitaði leigubílstjórinn konunni um far? Af hverju eru leigubílamál í svona miklum ólestri á Suðurnesjum?

Allt frá því Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, breytti reglum um akstur leigubifreiða á milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness árið 2005 hafa þessi mál verið í algjörum ólestri fyrir Suðurnesjamenn. Þessi breyting og afleiðingar hennar hafa meðal annars orðið til þess að lítið er um leigubíla á Suðurnesjum og þá sérstaklega á álagstímum eins og um helgar því með fyrrgreindum breytingum voru þessi aksturssvæði sameinuð. Það þýðir að leigubílstjórar í Reykjanesbæ mega bjóða þjónustu sína í Reykjavík og öfugt.

Gulleggið gefið Reykjavík

„Gulrótin“ í þessum breytingum fyrir leigubílsstjóra í Reykjavík var í raun „gullegg“ leigubílsstjóra á Suðurnesjum: Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Breytingarnar þýddu að leigubílsstjórar í Reykjavík gátu nú keyrt upp í flugstöð og beðið þar eftir farþegum og leigubílsstjórar í Reykjanesbæ gátu keyrt til Reykjavíkur og fengið þar farþega.

Einn aðaltilgangur breytinganna var að bæta þjónustu við flugfarþega og auka hagræði við akstur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar eins og kom fram í máli Sturlu á þeim tíma sem hann talaði fyrir þessum breytingum.

Gullegg þeirra sem stunduðu leigubílaakstur á Suðurnesjum en árið 2005 breyttist það.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar Gullegg þeirra sem stunduðu leigubílaakstur á Suðurnesjum en árið 2005 breyttist það.
Mynd: © Róbert Reynisson © Róbert Reynisson

Nú. tíu árum seinna, er það ljóst að þessar breytingar bættu engu við þjónustu við flugfarþega og má með sanni segja að með breytingunum hafi verið dregið úr þjónustu við Suðurnesjamenn. Hvernig má það vera?

Þeir sem DV hefur rætt við og koma nálægt akstri leigubifreiða segja allir að með breytingunum hafi leigubílsstjórar í Reykjanesbæ fjölmennt til Reykjavíkur á meðan leigubílsstjórar í Reykjavík hafi í stórum mæli fjölmennt í flugstöðina. Eftir stóð Reykjanesbær og máttu íbúar á tímabili prísa sig sæla ef hægt var að fá leigubíl.

Afleiðingar þessara breytinga endurspeglast líka í frásögn Guðmundar sem segir þetta vandamál hafa verið til staðar í tíu ár eða allt frá því aksturssvæðin voru sameinuð.

Þannig að þessar breytingar voru ekki jákvæðar fyrir Suðurnesin?

„Nei það er svo langur vegur þar frá. Ég er búinn að vera bílstjóri í meira eða minna en 40 ár og hef farið ansi oft upp í flugsstöð. Þetta var alltaf saga sem gekk og hefur verið gegnum gangandi frá því svæðin voru sameinuð. Í gærmorgun þá sannreyndi ég þetta og fékk þetta vandamál beint í æð. Þetta er að gerast allt of oft,“ segir Guðmundur.

Mega ekki neita fólki

En þessu eru ekki allir sammála. Sæmundur Kr. Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, segir þjóðfélagið einfaldlega hafa breyst og með gífurlegri fjölgun ferðamanna hafi einfaldlega þurft að breyta þessu.

„Það var takmörkun á leigubílafjöldanum í Keflavík og það var takmörkun á leigubílafjöldanum á höfuðborgarsvæðinu. Sturla Böðvarsson lét sameina þetta í eitt svæði, það þýddi það að þetta var sameinað í eitt og sama gjaldsvæðið. Pældu í því að það var keyrt hérna á árum áður á tvöföldu eða utanbæjargjaldi frá Keflavík til Reykjavíkur og öfugt þannig að það var margfalt dýrara fyrir fólkið að fara þarna á milli,“ segir Sæmundur.

Hann bendir einnig á að þeir leigubílar sem hafi verið í Keflavík, miðað við þá miklu fjölgun ferðamanna, myndu aldrei ráða við að þjónusta bæði flugstöðina og íbúa á Suðurnesjum.

„Þeir hefðu aldrei getað annað þessu. Ég held að það sé ekki mikið um það að leigubílstjórar séu að keyra í Reykjavík um helgar því þeir hafa næga vinnu í Keflavík. Það er síðan ákveðinn hópur af bílstjórum úr Reykjavík sem eru suður frá,“ segir Guðmundur sem vill taka eitt skýrt fram:

„Allir leigubílstjórar verða að taka við öllum þeim farþegum sem til þeirra koma. Það er ekki hægt að hafa neitt val um það nema í einhverjum algjörum undantekningartilfellum.“

Gætu verið reknir í burtu

Ekki er langt síðan ISAVA, sem sér um rekstur Keflavíkurflugvallar, kom upp aðstöðu fyrir leigubílstjóra við Flugstöð Leifs Eiríkssonar en í kjölfarið var tekið upp sérstakt gjald fyrir þá sem vilja nýta sér hana og bíða eftir farþegum. Samkvæmt upplýsingum frá ISAVIA þá þurftu allir þeir leigubílstjórar sem sóttu um aðstöðu á flugvellinum að skrifa undir ákveðna skilmála.

Í þeim skilmálum kemur skýrt fram að leigubílstjórar eiga að taka næsta farþega.

Þetta staðfestir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, en hann segir viðurlög við því ef leigubílstjórar brjóta þessa skilmála.

Hvað þýðir það? Geta menn átt von á því að vera reknir í burtu?

„já það gæti endað með því.“

Hvert geta þeir leitað sem er neitað um far við flugstöðina? Hvern geta þeir látið vita?

„Það er best að senda tölvupóst á kefairport@kefairport.is.“

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.