Greining ríkislögreglustjóra: Ákvörðun getur aukið aðdráttarafl flóttamanna

Ríkislögreglustjórinn greinir áhættu við að taka á móti flóttamönnum

Straumurinn af flóttamönnum er gífurlegur og Íslendingar hafa ekki síst fundið fyrir því undanfarnar vikur og mánuði.
Flóttamenn Straumurinn af flóttamönnum er gífurlegur og Íslendingar hafa ekki síst fundið fyrir því undanfarnar vikur og mánuði.
Mynd: EPA/FILIP SINGER

„Hvað hælisleitendur varðar er vandinn gagnvart lögreglu og samfélaginu, að mati Lögreglunnar á Suðurnesjum, fólginn í því að straumnum fylgi brotastarfsemi eins og málin sanni,“ segir í skýrslu Ríkislögreglustjóra sem nefnist: Áhættumat og greining vegna komu flóttafólks og aukins álags á landamærum Íslands. Eins kemur fram í skýrslunni að ákvörðun ríkisstjórnar um að taka á móti flóttamönnum, geti aukið aðdráttarafl landsins og þannig aukið álag á landamærin til lengri tíma litið.

Í skýrslunni kemur fram að ekki sé líklegt að hryðjuverkamenn á vegum ISIS reyni að koma til landsins undir yfirskini hælisleitenda. Meðal annars vegna þess að ferðin er löng og hættulegt. Auk þess sem það vanti ekki einstaklinga í Evrópu sem eru hliðhollir málstað ISIS eins og dæmin hafa sannað.

Í skýrslunni kemur fram að ekki sé einvörðungu um mögulega brotamenn að ræða, sem gætu komið til landsins, heldur einnig möguleg fórnarlömb, s.s. mansals. Aukinn fjöldi mála þýði fleiri verkefni og aukið álag hjá lögreglu.

„Í því sé í sjálfu sér fólgin ógn, þar sem fjölgun verkefna í einum málaflokki bitni á eftirliti og rannsóknum í þeim sama málaflokki og öðrum málum almennt,“ segir svo í skýrslunni. Fram kemur þó í skýrslunni að afbrot hælisleitenda séu misjöfn, og skeri sig ekki úr hvað aðra hópa varðar.

Í ljósi þróunar undangenginna missera er það mat Lögreglunnar á Suðurnesjum að sérstök aðgerðaráætlun hefði verið nauðsynleg til þess að auka eftirlit á landamærum með umferð sem kemur frá Schengen-ríkjum.

Aðgerðargeta embættisins til þess að auka eftirlit með umferð innan Schengen-svæðisins sé afar takmörkuð. Nú eigi embættið í fullu fangi með að takast á við þau mál sem koma upp við hefðbundna starfsemi.

Að mati Lögreglunnar á Suðurnesjum liggur auk þess í augum uppi að yrði eftirlit aukið myndi málum fjölga sem þyrfti að rannsaka og vinna með. Segja megi að aðgerðargeta til þess að takast á við fleiri verkefni sé ekki til staðar nú og því þjóni það takmörkuðum tilgangi að auka eftirlit þegar sú staða sé uppi að ekki sé unnt að tryggja að þau mál fái faglega afgreiðslu og eðlilega framgöngu innan kerfisins, eins og það er orðað í skýrslunni.

í greiningu Ríkislögreglustjóra kemur meðal annars fram að lögreglan sé illa í stakk búin til þess að takast á við mikinn fjölda flóttamanna.
Ríkislögreglustjóri (t.h.) í greiningu Ríkislögreglustjóra kemur meðal annars fram að lögreglan sé illa í stakk búin til þess að takast á við mikinn fjölda flóttamanna.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hætt sé við því að þessi staða breytist ekki á næstu vikum og mánuðum nema að gerðar verði kerfislægar breytingar á starfseminni hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og kerfinu í heild.

Í þessu sambandi eru nefndar til sögu eldri tillögur um að lögreglan verði hluti af móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur á Keflavíkurflugvelli. Hvað hælisleitendur varðar er vandinn gagnvart lögreglu og samfélaginu, að mati Lögreglunnar á Suðurnesjum, fólginn í því að straumnum fylgi brotastarfsemi eins og málin sanni. Ekki sé einvörðungu um mögulega brotamenn að ræða heldur einnig möguleg fórnarlömb, s.s. mansals. Aukinn fjöldi mála þýði fleiri verkefni og aukið álag hjá lögreglu. Í því sé í sjálfu sér fólgin ógn, þar sem fjölgun verkefna í einum málaflokki bitni á eftirliti og rannsóknum í þeim sama málaflokki og öðrum málum almennt.

Svo segir orðrétt í skýrslunni:

„Þegar liggur fyrir að lögreglan hefur ekki getu til slíks eftirlits og má þar benda á aukið álag samfara fjölgun ferðamanna. Fjölgun hælisleitenda skapar aukið álag hjá öllum lögregluumdæmum landsins. Minni aðgerðargeta hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli getur þannig haft áhrif á fjölda verkefna hjá öðrum lögregluliðum. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurnesjum færist í vöxt að fólk reyni að ferðast til Íslands á fölsuðum skilríkjum. Þekkt er að þannig reyni einstaklingar m.a. að forðast réttvísina. Þekkt er að fölsuðum skilríkjum tengjast oft önnur brot, s.s. peningaþvætti, smygl á fólki, mansal, og ýmis skipulögð brotastarfsemi.“

Í lok skýrslunni segir að almennt verði ekki séð að móttaka flóttamanna feli í sér áhættu hvað almannaöryggi og öryggi íslenska ríkisins varðar.

Þá segir: „Vissulega verður aldrei útilokað að illvirkjar og glæpamenn leynist í hópi flóttamanna - jafn fráleitt er að hafna þeim möguleika og að upphefja hann.“

Þá vekur athygli að í skýrslunni kemur fram að ákvörðun ríkisstjórnar um að taka á móti flóttamönnum dragi til skamms tíma úr álagi á ytri landamæri Evrópu en geti til lengri tíma orðið til þess að auka álagið á Íslandi þar eð hælisleitendur á eigin vegum kunna í auknum mæli að horfa til Íslands í ljósi jákvæðra aðgerða stjórnvalda við að taka á móti flóttafólki.

Með öðrum orðum getur ákvörðun ríkisstjórnarinnar aukið aðdráttarafl landsins (e. pull factor) um leið og gripið er „til aðgerða sem umbylt geta og hraðað afgreiðslu hælisumsókna hérlendis“, líkt og segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins frá 19. september 2015.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.