Aðför gegn beinu lýðræði í Reykjanesbæ: „Bæjarstjórnin ber litla virðingu fyrir íbúum Reykjanesbæjar“

Bæjarstjórinn segir íbúakosningu um frekari stóriðju í Helguvík „í sjálfu sér skipta engu máli“ – Píratar senda frá sér harðorða yfirlýsingu

Fjöldi íbúa vill hafa áhrif á frekari stóriðju í Helguvík.
Helguvík Fjöldi íbúa vill hafa áhrif á frekari stóriðju í Helguvík.
Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur lýst því yfir að hún muni ekki virða þá kosningu sem fram á að fara í bæjarfélaginu 8. til 20. nóvember næstkomandi. Í viðtali sagði bæjarstjórinn: „Við látum kosninguna fara fram og framkvæmum hana eins vandlega og við getum en niðurstaðan í sjálfu sér skiptir engu máli.“ Að mati stjórnar Pírata í Reykjanesbæ er þetta aðför gegn beinu lýðræði og íbúalýðræði sem bendir til þess að bæjarstjórnin beri litla virðingu fyrir íbúum Reykjanesbæjar sem skv. 102. gr. sveitarstjórnarlaga hafa rétt til áhrifa á stjórn sveitarfélagsins, meðal annars með íbúakosningum, skv. 107. gr. sömu laga,“ segir í yfirlýsingu frá Pírötum í Reykjanesbæ en tilefnið er íbúakosning vegna breytinga á deiliskipulagi í Helguvík.

Í Reykjanesbæ vilja Píratar sjá að niðurstöður íbúakosninganna hafi raunveruleg áhrif.
Píratar Í Reykjanesbæ vilja Píratar sjá að niðurstöður íbúakosninganna hafi raunveruleg áhrif.

„Píratar í Reykjanesbæ undrast þær yfirlýsingar sem bæjarstjórnin hefur látið hafa eftir sér í þessu máli. Yfirlýsingarnar benda til þess að bæjarstjórninni séu hugsanlega aðrir hagsmunir en hagsmunir íbúa sveitarfélagsins efst í huga í þessu máli. Þá sætir það furðu að bæjarstjórnin telji sig hafa umboð til þess að virða að vettugi niðurstöðu meirihluta íbúa sveitarfélagsins fari svo að hún verði þeim ekki að skapi,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórn Pírata hvetur bæjarstjórn Reykjanesbæjar til að gera úrslit íbúakosninganna bindandi „..hver sem þau kunna að verða eða útskýra vandlega annarsvegar á hvaða hátt niðurstaða kosninganna verður ráðgefandi og hinsvegar hvernig lögbundnum rétti íbúa til að hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins er fullnægt með þeim hætti.“

En það eru fleiri en Píratar í Reykjanesbæ sem eru ósáttir við framkvæmd kosninganna og hvernig niðurstöður hennar hafa áhrif á frekari stóriðju í Helguvík. Sá hópur sem barðist fyrir íbúakosningunni með söfnun undirskrifta hefur boðað til íbúafundar í kvöld í félagsheimilinu Mánagrund og hefst fundurinn klukkan 20:00 undir yfirskriftinni „Óþarfa áhætta fyrir íbúa Reykjanesbæjar.“

„Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur gefið það í skyn að ef íbúakosningin verði honum ekki að skapi verði ekki hlusta á íbúana. Eru það eðlilegir starfshættir í lýðræðisþjóðfélagi? Þess vegna er ennþá mikilvægara fyrir íbúa bæjarins að taka þátt í kosningunni og láta rödd sína heyrast,“ segir á Facebook-síðu fundarins.

„Góðir gestir koma á fundinn og ræða stöðuna sem upp er komin. Talsmaður frá hópnum sem safnaði undirskriftum mætir á svæðið, auk Svandísar Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, hefur bæst við í hópinn og mun halda erindi á fundinum.“

Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.