Gengi bréfa Icelandair rjúka upp eftir uppfærða afkomuspá

Icelandair gerir ráð fyrir að EBITDA-hagnaður verði 30 milljónum dala meiri en áður var spáð

Björgólfur Jóhannsson
Forstjóri Icelandair Björgólfur Jóhannsson

Samkvæmt uppfærðri afkomuspá Icelandair Group verður EBITDA-hagnaður - afkoma fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir - félagsins 210-2015 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 27-28 milljarðar króna, á árinu 2015 en fyrri spá Icelandair gerði ráð fyrir að EBITDA-hagnaður yrði 180-185 milljónir dala.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar en Icelandair hefur birt drög að árshlutareikningi fyrir þriðja ársfjórðung. Samkvæmt þeim verður EBITDA-hagnaður fyrirtækisins 150 milljónir dala borið saman við 124 milljónir dala fyrir sama tímabil árið 2014. Helstu ástæður fyrir betri afkomu á þriðja ársfjórðungi en gert hafði verið ráð fyrir eru hærri farþegatekjur og lægri eldsneytiskostnaður, auk þess sem viðhaldskostnaður var lægri en áætlað hafði verið.

Gengi bréfa í Icelandair hafa rokið upp í viðskiptum í Kauphöllinni eftir tilkynningu félagsins. Þegar þetta er skrifað hafa bréfin hækkað í verði um tæplega 4% í ríflega 500 milljóna króna viðskiptum og er gengi bréfa Icelandair núna 33,63 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað um meira en 60% frá áramótum.

Árshlutareikningur félagsins fyrir þriðja ársfjórðung 2015 verður birtur eftir lokun markaða þann 29. október næstkomandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.