„Nokkur orð til þín sem ætlaðir að nauðga mér á föstudagskvöldið!“

Sigrúni Lilju, eiganda Gyðju Collection, var byrlað um helgina

Birti þessa mynd með færslu sinni á Facebook í kvöld.
Sigrún Lilja Birti þessa mynd með færslu sinni á Facebook í kvöld.
Mynd: Úr einkasafni

Sigrún Lilja, eigandi Gyðju Collection, sendir nauðgara tóninn á Facebook-síðu sinni í kvöld. Hún var ásamt vinkonum sínum úti að skemmta sér um helgina þegar henni var byrlað einhverju sem hún segir að hafi bókstaflega lamað sig.

Lömuðust ein af annarri

Sigrún Lilja er eigandi Gyðju Collection sem meðal annars býr til ilmvatnið EFJ: Eyjafjallafjökull.
Gyðja Collection Sigrún Lilja er eigandi Gyðju Collection sem meðal annars býr til ilmvatnið EFJ: Eyjafjallafjökull.

„Þú hefur væntanlega skipulagt þig vel fyrir kvöldið, passað uppá að vera með nægilega mikið af nauðgunarlyfi meðferðis þegar þú fórst niðrí bæ, tilbúin að finna þér fórnarlömb kvöldsins til að eitra fyrir,“ segir Sigrún Lilja í færslu sinni á Facebook sem hún birti í kvöld.

„Við vorum heppnar þetta kvöld og það er ekki þér að þakka, við vinkonurnar fórum í sitthvora áttina áður en við duttum út og lömuðumst ein af annarri og það er örugglega það besta sem gat komið fyrir okkur, því við vorum allar með öðru fólki á því augnabliki sem gátu komið okkur til aðstoðar þegar lyfið fór að verka.“

Samstarfskonan bjargaði henni

Sigrún Lilja segist þakka guði fyrir það að ekki hafi farið verr, hún hafi verið með samstarfskonu sinni um kvöldið sem hún hafði nýverið kynnst: „og hún hefði auðveldlega getað afskrifað mig sem dauðadrukkna.“

Samstarfskona Sigrúnar Lilju og eiginmaður hennar aðstoðuðu hana við að komast heim en það tók samt sem áður smá tíma þar sem Sigrún Lilja var meðvitundarlaus.

„Maðurinn minn var vakinn og fékk hann taugaáfall þegar hann sá mig því hann hefur þekkt mig í 15 ár og aldrei séð mig í ástandi í líkingu við þetta. Ég er ein af þeim sem kann mín mörk og veit ekki hvað "black out" er,“ skrifar Sigrún Lilja.

Tóku hjartarit og könnuðu hjartsláttinn

Hringt var á sjúkrabíl þar sem Sigrún Lilja lá hreyfingarlaus í anddyrinu heima hjá sér, átti erfitt með andardrátt og kastaði stöðugt upp.

„Það er verið að skoða eftirlitsmyndavélar og lögreglan er að fara í málið og ég vona að þeir finni þig,“

„Sjúkraflutningamennirnir tóku hjartarit til að kanna hjartsláttinn þar sem mikil hætta getur verið á að hann hægist svo mikið og að andardráttur verði svo erfiður að manneskjan sem er byrlað svona mikið hreinlega hætti að anda. Eftir að hafa mónitorað mig í dágóðan tíma og borið mig inní rúm, fylgst með blóðþrýsting, öndun og sjón fékk maðurinn minn það hlutverk að vaka yfir mér. Hann reyndi að hringja í vinkonur mínar til að átta sig á hvað hefði komið fyrir en þær svöruðu ekki símanum, því þær voru í sama ástandi og ég í sama augnlabiki, en sem betur fer, heima hjá sér,“ skrifar Sigrún Lilja sem endar færslu sína á því að senda meintum nauðgara skilaboð.

Enn að jafna sig

„Það er verið að skoða eftirlitsmyndavélar og lögreglan er að fara í málið og ég vona að þeir finni þig, en það versta við það er að dómskerfið okkar er svo veikt þegar kemur að lögum um slík mál að þrátt fyrir að þú hafir örugglega nauðgað mörgum, fengið margar kærur þá gengurðu laus í mörg ár á eftir og heldur áfram að eyðileggja líf fólks í þinni eigin eymd og volæði um hverja einustu helgi,“ skrifar Sigrún Lilja en hún segist enn vera að koma til eftir að hafa verið byrlað ólyfjan.

„Núna eru komnir þrír dagar síðan þetta gerðist og við vinkonurnar erum að koma til, við erum ennþá með mikla krampa, mikinn svima, kaldan svita, við erum aumar í öllum líkamanum, kokinu, brjóstkassanum, við erum marðar og bláar en við munum jafna okkur, en það er ekki þér að þakka, því það munaði svo litlu að við hefðum fengið ör af þinni hendi sem hefði ekki verið hægt að taka til baka.“

Færslan í heild sinni:


Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.