Ásdís Rán lýsir óhugnanlegu atviki í Búlgaríu: „Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir að hann væri með svona mikið vald“

Mynd: Brynja

„Þetta er náttúrulega eitthvað sem ég hef alltaf vitað. Konur í mínu fagi, leikkonur og fyrirsætur, við vitum þetta alllar við höfum alltaf vitað þetta. En þetta hefur ekki verið uppi á yfirborðinu eins og þetta er núna. Ég hef oft lent í svona tilvikum þó svo að þetta hafi nú kanski verið það versta“ segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir athafnakona og fyrirsæta og vísar þar í #metoo byltinguna svokölluðu. Sjálf á Ásdís Rán sögu sem tengist #metoo en hún segir mikilvægt að byltingin leiði ekki til þess að karlmenn hætti að þora að daðra við konur og sýna þeim áhuga.

Þetta kom fram í útvarpsþættinum K100 á dögunum en Ásdís Rán greindi upphaflega frá atvikinu í viðtali við Birtu, fylgiblað DV. Sagði hún frá því þegar forstjóri einnar stærstu blaðaútgáfunnar í Búlgaríu ákvað að svipta hana frekari fyrirsætuverkefnum fyrir fyrirtækið sökum þess að Ásdís Rán vildi ekki sænga hjá honum en atvikið átti sér stað fyrir fimm árum:

„Þetta er auðvitað alveg hræðilegt þegar málið snýst um vinnuna og ég hef einu sinni verið sett í hrikalega vonda stöðu hvað það varðar. Ég hafði unnið með stærsta blaðaútgáfufyrirtæki Búlgaríu í mörg, mörg ár. Setið fyrir á forsíðum, skrifað dálka, tekið viðtöl og margt fleira. Svo bauð forstjórinn mér út að borða sem ég þáði en þegar hann svo vildi eitthvað annað og meira en ég var til í, þá brást hann ókvæða við.

Hann hélt áfram að reyna en ég gaf mig ekki svo á endanum hótaði hann mér að ef ég myndi ekki hlýða honum þá myndi hann setja algjört stopp á mig innan fyrirtækisins. Ég ákvað að ganga í burtu, bjóst ekki við að hann gæti haft svona mikil áhrif á ritstjórana – en hann gerði það nú samt. Ég fékk engin fleiri verkefni hjá þeim blöðum sem ég hafði unnið með og missti fullt af verkefnum og tekjum. Þetta geta þeir komist upp með og því miður eru margar konur sem hafa orðið fyrir svona ranglæti.“

Mynd: Úr einkasafni

Í viðtali við K100 kom atvikið í Búlgaríu einnig til tals en Ásdís Rán sagði viðbrögð forstjórans hafi komið sér algjörlega að óvörum „Ég gerði mér alveg ekki grein fyrir að hann væri með svona mikið vald, af því að þetta voru blöð sem ég var búin að vinna fyrir í mörg ár.

Þá benti Ásdís Rán á það að #metoo byltingin gæti leitt til þess að karlmenn hikuðu við að gefa konum undir af ótta við að hegðun þeirra væri túlkuð sem áreiti.

„Það þarf að vekja athygli á þessum hlutum og það er náttúrulega frábært hvað fólk er búið að komast langt í þessari baráttu. En svo verður líka að draga svolítið skýr mörk á milli að karlmenn séu ekki orðnir það hræddir að þeir bara megi ekki koma nálægt konum eða megi ekki senda sms eða reyna við konur án þess að því sé tekið sem áreiti. Mér finnst alveg gaman þegar menn þora reyna við mig og ég vil ekkert að það bara leggist út af en karlmenn eru í dag orðnir rosalega hræddir, bæði í bisness og í daglegu lífi og á börum.“

Þá telur Ásdís Rán að draga þurfi skýrar línur á milli þess sem kallast óeðlileg og eðlileg hegðun hjá karlmönnum.

„Það má reyna við, það má daðra, það má gera þessa hluti án þess að það sé áreiti. Það þarf að draga svolítið skýr mörk þarna á milli, ég veit ekki alveg hvernig það er hægt. Það má náttúrulega ekki vera þannig að karlmenn hrökkvist inn í skel og verði bara heima.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.