Ljótar gjafir í tvo áratugi

Systurnar Íris og Þóra og eiginmenn þeirra leita uppi forljóta minjagripi og gefa

Þetta er ein þeirra fjölmörgu forljótu gjafa sem Íris og Þóra og eiginmenn þeirra hafa gefið hvert öðru á síðustu tveimur áratugum.
Ósmekklegt drasl Þetta er ein þeirra fjölmörgu forljótu gjafa sem Íris og Þóra og eiginmenn þeirra hafa gefið hvert öðru á síðustu tveimur áratugum.
Mynd: Þóra Emilsdóttir

Í 21 ár hafa systurnar Íris og Þóra Emilsdætur og eiginmenn þeirra, Sigurður og Helgi, hrekkt hvert annað með því að gefa forljóta minjagripi sem þau hafa fundið á ferðalögum sínum um heiminn.

„Þetta byrjaði með bjánalegri gjöf sem þau gáfu manninum mínum. Þetta var einhvers konar föndrað altari með helgimynd og kerti eins og þú setur á kökur í barnaafmælum. Þau keyptu þetta í Barcelona og gáfu honum einfaldlega af því að þeim fannst þetta svo svakalega ljótt,“ segir Íris um upphaf hefðarinnar.

„Næst þegar við fórum til útlanda ákváðum við að launa þeim þetta og kaupa jafn ljóta gjöf. Þá komumst við að því að það er rosalega gaman að finna ljótar gjafir. Nú eru allir vinir okkur farnir að taka þátt í leitinni þegar við erum á ferðalögum.“

Mynd: Þóra Emilsdóttir

Á rúmum tveimur áratugum hefur safnast mikið magn forljótra og smekklausra gjafa alls staðar að úr heiminum: „Það er miserfitt að finna ljótar gjafir á mismunandi stöðum, Spánn er algjört himnaríki en Ítalía er erfið, það margt ljótt í London en lítið í París. Mjög fáar gjafir eru keyptar hér á landi þótt það sé sífellt að aukast framboð á ljótum gjöfum hér á landi. Það er bara svo ótrúlegt að fólk skuli leggja vinnu í að búa til þetta ósmekklega plastdrasl með ekkert notagildi – og ótrúlegt að einhver skuli kaupa þetta.“

Eftir ítrekaðar fyrirspurnir frá vinum og ættingjum ætla vinahjónin loksins að halda sýningu með gjöfunum ljótu og verður hún haldin í vinnurými hjá móður systranna við Flókagötu 41 á Menningarnótt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.