Bestu vinkonur í gegnum tískuna

Magnea og Bára láta draumana rætast

Vinkonurnar Magnea Björg og Bára kynntust þegar þær unnu saman í tískuvöruverslun og urðu strax bestu vinkonur, enda hafa báðar mikinn áhuga á tísku og förðun. Þær ætla sér að læra og gera eitthvað skemmtilegt í lífi og starfi og nýta þau tækifæri sem þeim standa til boða, en Magnea útskrifast í sumar úr námi í Los Angeles í Kaliforníu, meðan Bára flýgur um heiminn í starfi sínu sem flugfreyja hjá WOW air.

„Ég er búin að vera hér í tvö og hálft ár,“ segir Magnea. „Ég útskrifast frá Santa Monica College í júní úr námi sem heitir „communication media“ og þar læri ég um samskipti í víðum skilningi. Þetta er heilmikið nám og býður upp á mikla starfsmöguleika eftir útskrift, ég get til dæmis unnið við sjónvarp, útvarp, sem fasteignasali og fleira. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og gott nám sem hefur gert mikið fyrir mig sem einstakling.“

Bára útskrifaðist sem förðunarfræðingur 2013 úr Airbrush and Make Up School. „Ég lærði „special effects,“ leikhús- og hrekkjavöku-förðun,“ segir Bára sem hefur áður verið í Séð og Heyrt í hinum ýmsu gervum. „Ég hef verið að farða fyrir Séð og Heyrt áður og ég er bæði með síðu á Instagram og á Youtube. Mig langar að vinna meira við förðun og „special effects“ og draumurinn er að komast í skóla í Hollywood og læra meira í tengslum við það. Ég er ekki búin að sækja um í neinum skóla, en er alltaf með þetta í kollinum.“

Fötin smellpassa við bílinn.
Allt í stíl Fötin smellpassa við bílinn.

Alltaf draumur að búa í Los Angeles

Magnea hefur alltaf átt þann draum að búa í Los Angeles og þegar hún stundaði nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti byrjaði hún að vinna í tískuvöruversluninni Júník með skólanum. „Sara, eigandi Júník, hafði búið í Los Angeles, fór reglulega þangað til að kaupa inn fyrir búðina og var alltaf að tala um Los Angeles og það má segja að fleiri dyr hafi opnast til að fara hingað eftir að ég byrjaði að vinna fyrir hana. Það var fyrst og fremst út af Júník sem ég flutti til Los Angeles. Svo fór ég líka með Írisi, mömmu minni, hingað 2011 á fundi fyrir fyrirtækið hennar, Naglafegurð, sem ég fæ neglurnar mínar hjá og þá varð ég ástfangin af Los Angeles.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku og ég fann skóla, skráði mig í hann og kláraði allt ferlið, með vitund mömmu og pabba. Ég byrjaði á að velja Los Angeles og svo fór ég að skoða hvað mig langaði að læra þar.“

Skólinn hefur gert mikið fyrir Magneu og segir hún námið hafa hvort tveggja byggt upp sjálfstraustið og losað hana við feimnina, auk þess sem hún er mun betri í ensku. „Mér datt ekki í hug að námið myndi hjálpa mér svona mikið, ég er ekkert feimin lengur og sjálfstraustið hefur stóraukist, það er ekkert mál í dag að búa til eigin ræðu og flytja hana fyrir framan 30–40 manns. Ég er búin að læra mikið um samskipti við fólk og þetta er afskaplega uppbyggjandi nám. Ég hef meiri skoðanir á hlutum í dag en áður og hef meira að segja um hluti og málefni. Mamma segir að ég hafi gjörbreyst að sumu leyti.“ Magnea hefur líka verið í myndatökum og tónlistarmyndböndum fyrir rappara.

Draumastarfið er lýtalækningar

Eftir útskriftina í vor þá ætlar Magnea að vinna í eitt ár og er enn þá að ákveða sig við hvað, því margt er í boði og áhugasviðin mörg. „Ég lifi bara í núinu og ætla að nota tækifærið og gera alls konar hluti meðan ég er hér og er ung. Síðan þegar ég er búin að ákveða hvert framtíðarstarfið verður þá ætla ég „all-in“ í það.“

Magnea segir að ef að hún þyrfti í dag að velja draumastarfið eftir eitt ár, þá væri það fasteignasala af því að hún hefur gaman af að selja og í hverfum eins og Beverly Hills og flottari hverfum Los Angeles. „Ég á samt marga drauma, ég ætla að læra nýtt tungumál, læra á píanó og gítar, ég ætla að verða dj þannig að ég veit ekki hvað draumastarfið er, nema draumurinn um lýtalækninn er alltaf til en ég valdi kannski ekki rétta aðalfagið fyrir það, en er þó búin með ákveðna grunnáfanga, þannig að ég get farið í það nám þegar ég vil. En svo hef ég áhuga á tísku og langar að gera mína eigin fatalínu, ég er bara að reyna að koma með hugmynd sem enginn annar er með. Mig langar að vinna við tísku og selja, mér finnst svo gaman að selja. Í sumar ætla ég að læra frönsku og mig langar líka að læra hebresku, bara svona til gamans. Hér tala allir spænsku, en franskan er svo falleg og mér finnst svo gaman að gömlum sögum frá öðrum heimsálfum og menningarheimum og þar kemur hebreskan inn.“

Draumastarf Báru er hins vegar að vinna við förðun. „Draumastarfið væri að farða fyrir myndir, það sem hefur heillað mig mest frá því ég var krakki eru Lord of the Rings-myndirnar og gervin sem þar eru. Ég hef alltaf haft áhuga á tísku og snyrtivörum, mamma var með au pair og ég man til dæmis eftir því þegar ég var þriggja ára að þá vorum við búnar að leika okkur aðeins og au pair-stelpan búin að mála mig og gera mig fína. Eftir þetta þá var ég alltaf að biðja um að fá að mála mig.“

Eins og áður sagði þá hefur Bára áður komið í Séð og Heyrt og þá oft í hrekkjavökugervi, enda er hún einstaklega hrifin af hrekkjavökunni. „Um leið og hrekkjavakan er búin, þá er ég byrjuð að ákveða gervi fyrir næsta ár. Það er svolítið þannig að ég held upp á hrekkjavökuna, ekki jólin.“

Það verður að búa vel um hvuttann þegar hann er tekinn með.
Fer vel um seppa Það verður að búa vel um hvuttann þegar hann er tekinn með.

Vinkonur í gegnum vinnuna

Magnea var að vinna í Júník þegar Bára gekk þar inn og sótti um vinnu: „Þessi gullfallega stelpa kemur inn og ég spyr hana hvort að hún sé að sækja um vinnu.“ Daginn eftir var Bára mætt til vinnu og segir Magnea þær hafa smellpassað saman sem vinkonur og enn í dag eru þær bestu vinkonur, þrátt fyrir að búa hvor sínum megin á hnettinum. „Við eignuðust báðar góðar vinkonur í Júník þar sem við sem unnum, þar höfðum við allar áhuga á fötum og snyrtivörum og okkur langaði allar að gera eitthvað öðruvísi í lífinu, gera eitthvað stórt, stærra en var í boði hér heima.“
Bára staðfestir að þær hafi strax orðið mjög góðar vinkonur. „Við smellum saman sem karakterar, erum báðar dýravinir og erum með sama tískustíl.“

Hvernig er að búa í Los Angeles?

„Það var rosalega krefjandi fyrir mig að flytja til Los Angeles, ég var ekki með íbúð þegar ég kom út, bara pening fyrir hótelherbergi og ég og frænka mín, sem flutti út með mér, hoppuðum milli hótelherbergja og höfðum mánuð til að finna okkur íbúð sem fannst loksins eftir mikla leit. Svo þurfti að læra á strætó og taka hann hvert sem er, stofna símareikning, læra á skólann og koma sér inn í samfélagið. Samfélagið hér er mjög fjölbreytt, mikið af alls konar menningu og kynþáttum og ég er búin að læra svo mikið á að flytja hingað. Ég er mikið með fólki frá Frakklandi, maður lærir svo mikið af þeirra menningu, um landið þeirra, matinn og fleira. Hér er mikill rasismi og allir eru settir í ákveðna hópa, ég er hins vegar fordómalaus og allir vinir mínir hér segja að stærsti kostur minn sé að ég komi eins fram við alla, heimilislausa jafnt sem framkvæmdastjóra. Þú færð það algjörlega til baka hvernig þú kemur fram við fólk, ef þú kemur vel fram við aðra, er borin virðing fyrir þér og komið vel fram við þig.“

Íslendingar í Los Angeles halda úti síðu á Facebook og eru til dæmis með þorrablót og jólaball. Magnea segist einnig hitta Íslendinga af tilviljun úti á götu og jafnvel þann sama nokkrum sinnum í viku. „Ég er mikið í sambandi við nokkra Íslendinga sem búa hér og ég fæ oft skilaboð frá Íslendingum sem ferðast hingað sem eru að kanna hvort ég sé til í að sýna þeim hitt og þetta og fara með þeim á djammið. Það er alltaf eitthvað að gerast hér í borginni, hér eru frábærir klúbbar, fræga fólkið og alltaf gott veður. Ísland er eins og lítil Los Angeles eða hverfi hér, á Íslandi eru allir „gordjöss“, í nýjustu tísku, hlusta á sömu tónlist og horfa á sömu bíómyndir.“

Mun líklega búa á Íslandi með fjölskyldu

Magnea segist stundum fá heimþrá, sem var engin fyrst þegar hún flutti út. „Frænka mín sem flutti út með mér fór heim eftir fjóra mánuði og ég skildi ekkert af hverju hún vildi fara aftur til Íslands. Ég taldi fyrst að ég væri ekkert að fara heim aftur næstu tvö árin, Ísland ömurlegt og ekkert hægt að gera þar. Í dag ber ég mun meiri virðingu fyrir landinu mínu og sé fyrir mér að búa þar í framtíðinni með fjölskyldu. Ég fer stundum að gráta þegar ég heyri íslensk lög og mér finnst bæði matur og drykkir hér vondir, þannig að þegar ég kem heim til Íslands þá leyfi ég mér allt í mat og er jafnvel með lista yfir hvað ég ætla að borða og kaupa af mat.“

Í sumar starfar Bára sem flugfreyja hjá WOW air og segir að „það væri geggjað að geta heimsótt Magneu í sumar“.
„Ég hef fleiri tækifæri hér úti, draumar mínir geta ræst hér og ég get gert meira við líf mitt,“ segir Magnea. „Við erum að lifa lífinu fyrir okkur sjálf og eigum að lifa lífinu eins og okkur langar til að lifa því. Ekki að hugsa um hvað öðrum finnst um mann heldur bara einbeita sér að sjálfum sér.“

Magnea fylgist vel með tískunni í Los Angeles og flétturnar eru eitt það heitasta þar núna.
Fléttur það flottasta Magnea fylgist vel með tískunni í Los Angeles og flétturnar eru eitt það heitasta þar núna.

Bára og Magnea eru báðar virkar á samfélagsmiðlunum og má fylgjast með lífi og leik þeirra þar.
Bára er með heimasíðuna barabeauty.com, Instagram: barabeautymakeup og á Youtube: barabeauty.
Magnea er á Instagram: Magneabj og á snapchat: Maggabagga.

Magnea er töffari og veit nákvæmlega hvert hún ætlar sér.
Töff tíska Magnea er töffari og veit nákvæmlega hvert hún ætlar sér.

Sólgleraugun setja punktinn yfir i-ið.
Sumarleg Sólgleraugun setja punktinn yfir i-ið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.