„Tvo poka takk!“ gelti jakkafataklæddi maðurinn á afgreiðslukonuna í Melabúðinni

„Smásaga úr Vesturbænum: „Tvo poka takk!“ gelti jakkafataklæddi maðurinn á afgreiðslukonuna. Þetta var föstudagskvöld og klukkan að ganga sex og mannmargt í Melabúðinni. „Maðurinn horfði á vörufjallið á færibandinu og hugsaði sér gott til glóðarinnar.“

Þetta segir Andrés Jónsson almannatengill hjá Góðum samskiptum. Maðurinn í sögunni er Andrés sjálfur og óþarfi að skemma góða sögu með því að ljóstra frá plottinu í inngangi þessarar umfjöllunar. Við gefum því Andrési orðið.

„Það verður gaman að vígja nýja grillið með þessum sérvöldu kjötsneiðum,“ hugsaði hann. Maðurinn studdi sig við posastandinn og lét augun líða hratt yfir búðina á meðan að konan skannaði vörurnar. Hann hrökk við. Á næstu kössum voru margir helstu menningarpáfar hverfisins mættir. Einnig var í biðröðinni fólk sem hann þekkti og bar virðingu fyrir og átti von í hjarta um að væri gagnkvæmt. Hann spólaði til baka í huganum:

Svona varð Andrés að bjarga sér
Sturtað úr pokum í bílinn Svona varð Andrés að bjarga sér

„Er ég ekki örugglega með allt á hreinu hérna? Þokkalega til fara og ekkert vandræðalegt í innkaupakörf........ Nei, hvur andskotinn. Ég var að enda við að biðja um PLASTPOKA!!! ....Þvílík mistök. Já og bíddu er ég ekki líka maðurinn sem er að fara að standa fyrir sérstakri athöfn hér í Melabúðinni eftir helgi þar sem hleypt verður af stokkunum landsátaki með það að markmiði að útrýma plastpokum.“

Andrés heldur áfram að rekja raunir sínar. Svitinn perlaðist á enninu og efri vörinni. Staðan var vandræðaleg.

Að mæta þessu fólki við útganginn með tvo úttroðna plastpoka virtist of mikil áhætta. Hann þurfti jú að passa orðsporið. Hann leit á afgreiðslukonuna og biðröðina sem hlykkjaðist inn eftir búðinni. Því næst segir hann óðamála og á innsoginu... „Heyrðu... bíddu aðeins... ég er sko hættur við þessa plastpoka... ætla bara aðeins að skjótast út í bíl og ná í fjölnota. Verð enga stund.“

Dregið úr plastpokanotkun. Átakinu var hleypt af stað í Melabúðinni
Frá átakinu Dregið úr plastpokanotkun. Átakinu var hleypt af stað í Melabúðinni

Konan kinkaði góðlátlega. Biðraðarfólkið brosti kurteislega en það var engin leið að vita hvað þau voru að hugsa. ... Útí bíl voru fjölnotapokarnir merktir verslunarkeðjum, sem maðurinn taldi sig eiga, hvergi að finna en sem betur fer tvær sundtöskur fullar af drasli sem maðurinn hafði sópað oní af skrifborðinu sínu í vinnunni.

Kófsveittur sturtaði hann úr báðum töskunum í sætið og yfir gólf bílsins og kappgekk með þá undir hendinni aftur inn í búðina. Lafmóður og rjóður, en með sjálfsmyndina óskaddaða, raðaði hann vörunum í töskurnar á meðan hann hugsaði með sér brosandi „mikið er ég nú annars góður gaur!“

Þess má svo geta að átakinu var hleypt af stokkunum í Melabúðinni í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.