Frosti hjólar í „apaheilann“ á hvíta Toyota-bílnum: „Sumir eru bara fæðingarhálfvitar“

Frosti hvetur ökumenn til að sýna stillingu en fer svo illum orðum um ökumann sem varð á vegi hans í gær.
Ósáttur Frosti hvetur ökumenn til að sýna stillingu en fer svo illum orðum um ökumann sem varð á vegi hans í gær.

Fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason vandar ökumanni hvítrar Toyotu-bifreiðar ekki kveðjurnar í bakþönkum Fréttablaðsins í dag. Þar skrifar Frosti um umferðarmenninguna á Íslandi og mikilvægi þess að sýna stillingu í umferðinni.

Frosti segir að það geti reynst góður mælikvarði á geðheilsu manna hversu vel þeir kunna að bregðast við áreiti í umferðinni á götum höfuðborgarsvæðisins. Sjálfur hafi hann lært að mikilvægt sé að halda ró sinni, sýna þolinmæði og stillingu.

„Þrátt fyrir að hafa aldrei trúað á neitt sem kalla megi æðri máttarvöld þykir jafnvel mér, trúvillingnum, viðeigandi að kyrja þar stundum æðruleysisbænina góðu, en hún minnir á að stundum reynist best að sætta sig bara við það sem maður ekki fær breytt.“

Frosti bendir réttilega á að við eigum að forðast að láta skapið hlaupa með okkur í gönur. Það valdi skærum og illdeilum sem við getum vel verið án í okkar litla samfélagi.

„Þess vegna er gott að hafa í huga að öll höfum við gengið í gegnum sama umferðarskóla og þreytt sameiginlegt próf til ökuréttinda. Það sameinar okkur öll í lífsins ólgusjó og hjálpar okkur að komast klakklaust í gegnum frumskóginn sem samgöngukerfi landsins er,“ segir Frosti áður en hann veður í ökumann sem varð á vegi hans í gær.

„Það var því með nokkuð ævintýralegum ólíkindum að fylgjast með apaheilanum á hvíta Toyota Hybrid bílnum sem ók norður eftir Reykjanesbrautinni í morgun. Manngerpið var á undan mér í aðrein að brautinni en í stað þess að ná upp hraða umferðarinnar, gefa stefnuljós og sveigja svo varlega inn í strauminn ákvað fíflið að aka á fimm kílómetra hraða og bíða þess að bílar á hraðbrautinni myndu nema staðar til að hleypa honum inn sem þeir gerðu auðvitað ekki. Í huga mínum hélt ég inni flautunni og gargaði hressilega á kauða. Sumir eru bara fæðingarhálfvitar sem eiga alls ekki að vera með ökuréttindi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.