Jón Ólafsson: „Ég laug að símasölumanni í vikunni“

Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson sýnir á sér hina hliðina

Hin hliðin á Jóni Ólafssyni
Hin hliðin á Jóni Ólafssyni
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ef þú þyrftir að breyta, hvað myndirðu vilja heita annað en Jón Ólafsson eða vera annað en tónlistarmaður?

Ég myndi vilja heita Meyvant Neymar og vera atvinnumaður í knattspyrnu með brasilískan ríkisborgararétt.

Hvað halda margir um þig sem er alls ekki satt?

Að ég sé kallaður Jón „góði“ af því ég sé svo almennilegur. En þetta kemur til út af knattspyrnuhæfileikum mínum.

Hvað ætti ævisagan þín að heita?

Johnny Casual.

Hvað viltu að standi skrifað á legsteininum þínum?

„Hann fór ekki í ljós þrisvar í viku“

Hvaða lag hefðir þú viljað hafa samið?

„Lag, ljóð“ með Spilverki þjóðanna.

Hvað var í tísku þegar þú varst ungur en er það ekki lengur?

Til dæmis sítt að aftan, moonboots, upplitaðar gallabuxur, smekkbuxur.

Hvert er versta hrós sem þú hefur fengið?

„Það er svo gott að ryksuga við Sunnudagsmorgun (lagið)“ … Ég meina þá heyrist ekkert í laginu fyrir ryksugunni!

Hverju laugstu síðast?

Ég laug að símasölumanni í vikunni. Tjáði honum að ég hefði engan tíma til að tala við hann sem var ekki rétt.

Um hvað geta allir í heiminum verið sammála?

Að vatn er blautt.

Ef þú mættir bæta við ellefta boðorðinu, hvernig hljómaði það?

Þú skalt eigi leigja.

Á hvern öskraðirðu síðast?

Ég öskraði á meðspilara á oldboysæfingu í vikunni. Það er bara eðlilegt.

Hvaða einstakling finnst þér þú þekkja, þótt þú hafir aldrei hitt hann?

Mér finnst ég gjörþekkja Ringo Starr.

Hvaða hljóð fer mest í taugarnar á þér?

Ég á erfitt með áhersluna á öðru atkvæði í orðinu Ísland þegar stuðningsmenn syngja hástöfum: „Áfram Ísla-and“

Hvaða tveir hlutir eru hræðilegir hvor í sínu lagi en frábærir saman?

Strákarnir í Modern Talking.

Hvað er löglegt í dag en verður það líklega ekki eftir 25 ár?

Sykur

Um hvað varstu alveg viss þangað til þú komst að því að þú hafðir rangt fyrir þér?

Að ég væri 180 sentimetrar á hæð. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu segir að ég sé hálfum sentimetra hærri.

Hvert er þitt stærsta líkamlega afrek í lífinu?

Sennilega 100 kílómetrar sem ég hljóp í Nevada-eyðimörkinni árið 2005.

Í hvaða íþróttagrein finnst þér að keppendur ættu að leika ölvaðir?

Gólfæfingum fimleika og 3.000 metra hindrunarhlaupi.

Ef þú yrðir handtekinn án skýringa, hvað myndu vinir þínir og fjölskylda halda að þú hefðir gert af þér?

Að ég hefði rænt banka. Ekki spurning.

Ef þú myndir borða sjálfan þig, hvort myndirðu hverfa eða tvöfaldast?

Tvöfaldast held ég.

Ef þróunarkenningin er rétt, af hverju eru svín þá ekki með vængi?

Af því að jörðin er flöt.

Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi?

Vera ærlegur og halda þessu gangandi.

Hvað er fram undan um helgina?

Smá spilerí með Birni Jörundi, eitthvað jólastúss vænti ég og pinku leikhúsvinna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.