Ingó Geirdal: Rokkið, töfrarnir og stafur Chaplins

Lærði nördismann af föður sínum – Reyndi sjálfsvíg

„Hann var einstakur alhliða listamaður og ég held að það muni aldrei koma fram neinn slíkur aftur.“
Chaplin-safnari „Hann var einstakur alhliða listamaður og ég held að það muni aldrei koma fram neinn slíkur aftur.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar stigið er inn fyrir gættina á heimili Ingós Geirdal í Þverholtinu verður manni ljóst að hér býr mikill safnari. Innrammaðar ljósmyndir, plaggöt og teikningar hanga á veggjunum og flestar áritaðar. Mest áberandi eru myndir tengdar rokkhljómsveitinni Alice Cooper, þar á meðal tvær ljósmyndir af Ingó og rokkgoðinu sjálfu. Einnig hanga þar myndir af kvikmyndastjörnunni Charlie Chaplin og einn glerskápur er fullur af munum tengdum honum. „Þetta er nú frekar látlaust núna vegna þess að ég hef flutt oft á undanförnum árum. Áður fyrr var ég með tvo veggi undir Alice Cooper og tvo undir Chaplin.“ Með aldrinum hefur Ingó að mestu leyti hætt að flagga söfnum sínum en hver einasti munur er þó enn til í geymslu. Þrátt fyrir meint látleysi er íbúðin ákaflega tilkomumikil og segir mikla sögu.

Auk þess að vera forfallinn safnari hefur Ingó verið töframaður og gítarleikari í rokkhljómsveitum í meira en þrjá áratugi. Hann lærði tækniteiknun í Iðnskólanum og starfar nú hjá skiltagerðinni Lógóflex. „Ég vinn fulla vinnu og er með töfrasýningar og tónleika um helgar. Það er nóg að gera hjá mér.“

Nánir bræður

Ingólfur Hjálmar Ragnarsson Geirdal er fæddur 9. maí árið 1968 í Reykjavík, elsti sonur Ragnars Geirdals og Jennýjar Sigurðardóttur. Fyrstu fimm árin bjó hann í Bústaðahverfinu en flutti þá í Breiðholtið sem var að byggjast hratt upp. „Ég er einn af upphaflegu Breiðholtsvillingunum. Maður mótast af umhverfinu og aðstæðunum og ég held enn þá góðu sambandi við þá vini sem ég kynntist á þessum tíma.“ Síðan hefur Ingó búið í Reykjavík alla tíð ef frá eru talin þrjú ár í Svíþjóð.

Hann á tvö yngri systkini, Kolbrúnu Svölu og Sigurð (Silla). Ingó og Silli hafa verið samferða í tónlistinni síðan í æsku en fimm ár eru á milli þeirra. „Þessi aldursmunur skipti meira máli þegar ég var unglingur en hann barn en við höfum alltaf verið mjög nánir. Þegar ég fermdist árið 1982 fékk ég í gjöf utanlandsferð til frænku minnar sem bjó þá í Seattle. Ég fór þangað með fermingarpeningana og keypti mér rafmagnsgítar, fimmtíu rokkplötur og bassa handa Silla. Þarna var lagður grunnurinn að okkar samstarfi.“ Þeir bræður eru mjög svipað þenkjandi í tónlistinni en Silli hefur þó breiðari smekk. „Við höfum alltaf átt mjög auðvelt með að semja tónlist saman.“

Ingó segir að móðir þeirra, sem vinnur við heimahjálp, hafi reynst þeim bræðrum mjög góður bakhjarl í tónlistinni. „Hún mætir oft á tónleikana okkar, skutlar okkur og hjálpar á ýmsa vegu.“ Hann segist hins vegar hafa lært „nördismann“ af föður sínum sem er bifvélavirki og gerir upp fornbíla. „Ég hef engan áhuga á bílum og hann engan áhuga á þungarokki. En við gefum okkur alla í það sem við höfum áhuga á. Svo höfum við eitt sameiginlegt áhugamál sem er Chaplin. Hann fór með mig fjögurra ára gamlan í Hafnarbíó til að sjá Nútímann og þar kviknaði neistinn.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.