„Tilfinningin þegar ég sá son minn í fyrsta skipti var ömurleg“

Blaðamaður skrifar áhrifaríkan pistil um baráttu sína við þunglyndi

Átakanlegur pistill Jóhanns Óla hefur vakið athygli og veltir upp fjölmörgum ágengum spurningum.
Jóhann Óli Eiðsson Átakanlegur pistill Jóhanns Óla hefur vakið athygli og veltir upp fjölmörgum ágengum spurningum.

Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, stígur í dag fram og birtir áhrifamikinn pistil á bloggsíðu sinni þar sem hann lýsir baráttu sinni við þunglyndi og hvernig sú barátta hefur litað samskipti hans við þá sem eru honum kærastir. Pistilinn, sem ber heitið „Að hata barnið sitt“ skrifaði Jóhann Óli þann 13.maí síðastliðinn en nú, tæpum mánuði síðar og eftir langa umhugsun ákvað hann að gera hann opinberan.

Í pistlinum talar Jóhann Óli hreint út og lýsir því hvernig hann hafi barist lengi við þunglyndi og hvernig sú barátta hafi gert það að verkum að hann var ekki andlega tilbúinn í að takast á við föðurhlutverkið. Í greininni segir hann orðrétt „Allt hið slæma holdgerðist í barninu“ og að hann hafi í raun brotlent harkalega eftir fæðinguna. Ástandið varð svo slæmt að hann reyndi þrisvar að svipta sig lífi: „Tilraunirnar urðu alls þrjár. Allar jafn heimskulegar og vanhugsaðar. Lykilorðið er að þær voru tilraunir. Maður sem sannarlega vill sálga sér gerir það. Ég var í besta falli „til í það,“ skrifar Jóhann Óli.

„Það skiptir ekki máli hvað það er, allt sem honum viðkemur gerir daginn minn“

Jóhann Óli lýsir baráttu sinni ítarlega. Hvernig hann var kominn á algjöra endastöð en hefur nú tekist að spyrna sér frá botninum. „Sú tilfinning sem venst best af öllum er að hafa gaman af því að umgangast barnið sitt. Allt það sem áður braut mig niður og var það versta við hvern einasta dag hefur snúist í andhverfu sína. Það skiptir ekki máli hvað það er, allt sem honum viðkemur gerir daginn minn. Það þarf ekki nema lítið snapp, mynd eða myndband, af honum, það dugir,“ skrifar Jóhann Óli

Glíma karlmenn við fæðingaþunglyndi?

Pistill Jóhanns Óla er átakanlegur aflestrar, fullur af eftirsjá og angist en veltir upp fjölmörgum brýnum spurningum á borð við fæðingarþunglyndi karlmanna og hversu óásættanlegt það er að sjúklingar þurfa að bíða í fleiri mánuði eftir þjónustu geðlækna.

Brot úr pistli Jóhanns Óla:

Fyrir um tveimur og hálfu ári síðan bættist enn eitt hlutverkið við leikritið mitt. Ég fékk þær fregnir að ég væri að verða faðir. Áhugalaus og gagnslaus beit ég það í mig að gera mitt besta. Skítt með mína líðan. Ég var hvort sem er ófær um að finna nokkurn skapaðan hlut. Kærastan mín gat fundið hluti, ég gat allt eins gert mitt besta til að gera hana glaða (mitt besta var langt frá því að vera mikið).

Í mínum allra stærstu bjartsýnisköstum hugsaði ég með mér að með föðurhlutverkinu hyrfi vanlíðan mín líkt og fylgi Framsóknarflokksins eftir kosningar. Að þegar ég fengi barnið í hendurnar myndi andinn koma yfir mig, ég myndi finna fyrir hlutum á ný og sigla þessu skipi í örugga höfn. Oft hefur mér skjátlast en aldrei jafn hrapalega og þarna. Það kom á daginn að fleyið mitt var ryðgaður dallur sem var fjarri því að vera sjófær sökum leka.

Tilfinningin þegar ég sá son minn í fyrsta skipti var ömurleg. Ég fann fyrir viðbjóði. Allar lygarnar og allt sem ég hataði í fari mínu hafði skyndilega holdgerst. Slímugar bak við eyrun, inn í hitakassa á vökudeild Landspítalans og grenjuðu.

Hægt er að lesa pistil Jóhanns Óla í heild sinni hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.