Þetta verður árið okkar

Fjórar vinkonur halda úti vefsíðunni fagurkerar.is - Skrifa um foreldrahlutverkið á mannamáli

Þrítug og býr á Húsavík með sambýlismanni, syninum Ríkharði Val, eins árs og pug-hundunum Elvis og Buddha. Ásta er nemi á meistarastigi í matvælafræði við Háskóla Íslands, en kláraði þar áður nám í snyrti- og förðunarfræði og Bs-nám í næringarfræði.
Ásta Hermannsdóttir Þrítug og býr á Húsavík með sambýlismanni, syninum Ríkharði Val, eins árs og pug-hundunum Elvis og Buddha. Ásta er nemi á meistarastigi í matvælafræði við Háskóla Íslands, en kláraði þar áður nám í snyrti- og förðunarfræði og Bs-nám í næringarfræði.

Vinkonurnar Alexandra Ósk, Ásta, Guðrún og Sara Hlín standa saman að vefsíðunni fagurkerar.is, en þeim fannst vanta íslenska síðu þar sem mæður gætu skrifað efni ætlað ­öðrum mæðrum og foreldrum yfir­höfuð. „Okkur langaði að skrifa á mannamáli um allt það sem tengist börnum, uppeldi og foreldrahlutverkinu og einnig miðla áfram okkar reynslu. Þetta er síðan sem við vildum að við sjálfar hefðum getað haft aðgang að þegar við vorum ófrískar að börnunum okkar og vorum með þau lítil,“ segir Ásta Hermannsdóttir við blaðamann aðspurð hvernig hugmyndin að Fagurkerum kom til.

Vinnur sem aðstoðarsölustjóri hjá höfuðstöðvum Vero Moda í Danmörku, en er í fæðingarorlofi fram i júlí. Hún á börnin: Zoé Ósk 3 ára og Philippa-Isabelle 8 mánaða.
Alexandra Ósk Sigurjónsdóttir Vinnur sem aðstoðarsölustjóri hjá höfuðstöðvum Vero Moda í Danmörku, en er í fæðingarorlofi fram i júlí. Hún á börnin: Zoé Ósk 3 ára og Philippa-Isabelle 8 mánaða.

Upphaf Fagurkera

Upphaflega var síðan stofnuð af þeim Thelmu Sif Einarsdóttur og Árný Guðjónsdóttur og fljótlega bættist Sara við í hópinn. Um síðustu áramót ákváðu Thelma og Árný að hætta og þá tóku þær Ásta og ­Alexandra við sem eigendur ásamt Söru. „Við kappkostum við að fjalla um efni fyrir foreldra en skrifum einnig mikið um það sem við ­sjálfar höfum áhuga á, eins og tísku, hönnun, heilsu og matseld,“ ­segir Ásta. „Saman erum við ótrúlega gott teymi, erum með sama metnaðinn og sömu hugmyndir fyrir síðuna. Við vinnum mjög vel saman, en samskipti okkar fara að mestu leyti fram í gegnum Facebook því við búum úti um allt land og Alexandra meira að segja í Danmörku. En við reynum að hittast þegar við ­getum og þá er alltaf mjög gaman hjá ­okkur. Það eru algjör forréttindi að tilheyra hópi svona sterkra og flottra kvenna,“ ­segir Ásta og brosir.

Er Mosfellingur í húð og hár, kláraði Bsc í líffræði í HÍ. Vinnur hjá Íslandsbanka og er í fjarnámi í viðskiptafræði í HR. Á eina tveggja ára stelpu og á von á öðru barni í haust.
Guðrún Hilmarsdóttir Er Mosfellingur í húð og hár, kláraði Bsc í líffræði í HÍ. Vinnur hjá Íslandsbanka og er í fjarnámi í viðskiptafræði í HR. Á eina tveggja ára stelpu og á von á öðru barni í haust.

Fagurkerar komnir með dyggan lesendahóp

„Við skrifum í rauninni allar um allt milli himins og jarðar, svo lengi sem að við teljum að það vekji áhuga lesenda okkar. Við höfum alltaf ­viljað hafa það þannig að bloggararnir okkar hafi nokkuð frjálsar hendur þegar það kemur að efnisvali,“ ­segir Ásta. Hún segir þó að áherslurnar fari svolítið eftir áhugasviði þeirra og menntun, til dæmis sér hún meira um förðunar- og heilsufærslur þar sem hún er menntuð í þeim ­fögum. Aðspurð hvernig vefsíðunni hefur verið tekið hingað til svarar Ásta: „Eiginlega bara ótrúlega vel. Fyrsta árið fórum við svolítið rólega í hlutina, byggðum okkur og lesendahóp okkar hægt og rólega upp. En núna eftir áramótin höfum við keyrt þetta almennilega í gang og erum ótrúlega metnaðarfullar. Við erum nýbúnar að taka síðuna í yfirhalningu og nú er hún mun aðgengilegri og, að okkar mati, fallegri. Við erum komnar með mjög dyggan lesendahóp sem við erum ofboðslega þakklátar fyrir.“

Er 25 ára og býr á Selfossi með sambýlismanni sínum og 2 ára syni, Arnari Mána. Er í veikindaleyfi frá vinnu eins og er.
Sara Hlín Hilmarsdóttir Er 25 ára og býr á Selfossi með sambýlismanni sínum og 2 ára syni, Arnari Mána. Er í veikindaleyfi frá vinnu eins og er.

Lesendahópurinn stækkar

„Við ákváðum strax í upphafi árs að gera 2015 að okkar ári og það ­virðist svo sannarlega vera að rætast,“ ­segir Ásta og segir síðuna stækka og lesendum fjölga á hverjum degi. „Við ætlum okkur stóra hluti með Fagurkera og erum ótrúlega spenntar ­fyrir framhaldinu. Framtíðin er að öðru leyti nokkuð óráðin, en við ætlum að halda áfram að gera okkar besta, koma með vandaðar og skemmtilegar færslur og vinna í því að gera síðuna enn betri. Við munum halda áfram að blogga svo lengi sem að við höfum metnaðinn og höfum gaman af þessu. Við erum ótrúlega stoltar af því að vera eina síðan af þessu tagi á Íslandi í dag,“ segir Ásta að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.