Innritarinn slær í gegn í Leifsstöð: Rappaði í kallkerfinu

Jón Bjarni starfar við innritun farþega WOW - „Fólk hressist við og vaknar“

Rappaði texta í tilkynningu í Flugstöð Leif Eiríkssonar.
Jón Bjarni Ísaksson. Rappaði texta í tilkynningu í Flugstöð Leif Eiríkssonar.

Farþegum WOW-air til Alicante í síðustu viku, sem og öðrum gestum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, var heldur betur skemmt þegar þeir heyrðu óvenjulega en skemmtilega kynningu í kallkerfi flugstöðvarinnar.

Jón Bjarni Ísaksson, 23 ára starfsmaður í farþegaþjónustu í flugstöðinni, var sá sem tilkynnti farþegum WOW-air til Alicante að þeir mættu fara að skrá sig í vélina. Það gerði hann með ansi skemmtilegum hætti en hann rappaði skemmtilegan texta þar sem hann tilkynnti farþegum um brottförina og ómaði hann um alla flugstöðina.

Þetta rappaði Jón Bjarni

„Já komið þið blessuð og sæl kæra fólk sem er að fljúga. Við erum búin að opna hliðið, ég er ekki að ljúga. Ég lofa ykkur líka að hliðin eru ekki snúin en hafið bara vegabréfin ykkar tilbúin. Við hleypum núna um borð, frá hliði númer eitt. Við lokum fimmtán mínútum fyrr og við bíðum ekki neitt. Ekki vera sein á hliðið og ekki vera kjánar og drífið ykkur í flugið ykkar til Spánar.“

Í samtali við DV segir Jón Bjarni að textinn hafi komið til sín í eitt skipti þegar hann ók heim úr vinnunni. Textann lagði hann svo á minnið.

„Ég var að fara heim og var í svo góðu skapi að ég fór bara að bulla eitthvað.“

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Jón Bjarni tekur upp á því að tilkynna farþegum um brottför með skondnum hætti. Hann hefur nokkrum sinnum áður farið með vísur og annað í þeim dúr í kallkerfi flugstöðvarinnar.

„Ég hef samið tvær eða þrjár sjálfur. Flestar eru samdar þegar ég í góðu skapi og er eitthvað að fíflast. Þær eru ekki samdar á staðnum. Ég held að það myndi ekki enda vel,“ segir Jón og hlær.

Jón Bjarni segir farþega taka þessum uppátækjum sínum vel og hefur hann fengið mörg hrós frá þeim.

Stefnir á frama í leiklist

„Fólk hressist við og vaknar á morgnana þegar maður hefur gert þetta. Fólk segir oft við mig að þetta hafi verið flott og að það vilji fá að heyra meira svona.“

Hann segir það vera einskonar mottó hjá WOW-air að allir eigi að vera hressir og kátir. Það sé viðhorf sem hann kann að meta.

„Þetta er mottó sem mér finnst að ætti að gilda alls staðar.“

Jón hefur, auk þess að starfa í flugstöðinni, verið iðinn í leiklistarlífinu í Keflavík.

„Síðasta vor lék ég Imma Ananas í Ávaxtakörfunni og núna síðast lék ég Chris í leikritinu Killer Joe í uppsetningu Leikfélags Keflavíkur. Einnig var ég í Stundinni okkar síðasta sumar,“ segir Jón sem stefnir á að komast fara lengra í leiklistinni.

„Ég er alltaf að reyna að finna mér einhver ný og skemmtileg verkefni. Ég ætla að halda áfram að skemmta mér en planið er svo að fara í leiklistarnám í framtíðinni,“ segir Jón Bjarni að lokum.Þessi grein er af Suðurnesjavef DV, sem er að fullu aðgengilegur áskrifendum. Áskrift kostar aðeins frá 928 kr. á mánuði.
Sjá tilboð »

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.