„Get ekki hugsað mér að vera svona gaur sem hangir í pólitík af gömlum vana“

Óttarr Proppé í viðtali um pönk, pólitík, bindindi, reykleysi og barnleysi

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óttarr Proppé er miðjubarn. Yngri sonur þeirra Ólafs J. Proppé, fyrrverandi rektors við Kennaraháskóla Íslands, og Pétrúnar Pétursdóttur, fyrrverandi forstöðumanns menningar- og listamiðstöðvarinnar Hafnarborgar. Óttarr er líka litli bróðir Jóns Proppé listheimspekings og stóri bróðir Huldu Proppé, mannfræðings og rannsóknastjóra hjá Félagsvísindasviði Háskólans.

Hann hefur staðið í eldlínunni í pólitíkinni undanfarin ár en nú finnst honum þetta komið gott enda sleit hann, ásamt öðrum flokksmönnum í Bjartri framtíð, ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. Hann segir að eftir á að hyggja hafi hann líklega verið byrjaður að hugsa sig úr hlutverki stjórnmálamannsins enda geti hann ekki hugsað sér neitt verra en að enda sem „gaurinn sem er staðnaður í pólitík“.

Margrét H. Gústavsdóttir þáði kaffisopa hjá Óttari sem býr í menningarlegri íbúð við Garðastræti ásamt sálufélaga sínum, Svanborgu Þórdísi Sigurðardóttur.

Tuttugu eða þrjátíu prósent útlendingur

Í fasi er hann svolítið hlédrægur. Virkar næstum eins og hann sé feiminn sem stingur skemmtilega í stúf við ögrandi fatastíl hans og sviðsframkomu sem er allt annað en hlédræg. Satt að segja er Óttarr eins og umskiptingur á sviði því dagfarsprúði stjórnmálamaðurinn og fyrrverandi bóksalinn breytist í hvæsandi glamúrfjallaljón um leið og hann stígur á svið, hvort sem er með félögunum í HAM eða Dr. Spock, – enda hreint ekki einfaldur persónuleiki.

Óttarr ólst upp í tveimur löndum til skiptis, Bandaríkjunum og Íslandi, nánar tiltekið í bænum Urbana-Champaigne, í Illinois-fylki og í Hafnarfirðinum. Ólíkari staði er vart hægt að finna í þessum vestræna heimi en Óttarr segir að þessi umskipti hafi haft mjög mikil áhrif á hvernig hann sér og upplifir veröldina.

„Ég hóf skólagöngu mína í Bandaríkjunum árið 1975, fór svo aftur tíu til tólf ára og að lokum sem sextán ára skiptinemi árið 1986. Af þessu mótaðist ég mikið. Varð til dæmis tvítyngdur, sem gerði það að verkum að ég hef alltaf lesið meira á ensku en íslensku, og svo opnaðist annar heimur sem var töluvert fjölbreyttari en það sem við þekktum hér heima á þessum árum. Ég hafði til dæmis séð gos í dós, sjónvarp á daginn og fleiri en eina sjónvarpsstöð. Í bekknum mínum í Hafnarfirði voru bara örfáir krakkar sem höfðu farið til útlanda, hvað þá búið í útlöndum svo mér leið stundum eins og ég væri hálfur, eða svona tuttugu til þrjátíu prósent útlendingur,“ segir Óttarr.

„Í New York var allt í lit í samanburði við Reykjavík og maður sá flippað fólk í furðulegum fötum án þess að það væri að dimmitera og svona. Allt sem mér fannst spennandi kom þaðan. Ég uppgötvaði yfirleitt nýja tónlist af kassettum sem Jón bróðir sendi frá Bandaríkjunum meðan hann var þar í námi og þessi þrá, að komast til útlanda, burt úr grámanum og fábreytninni, varð snemma að einhvers konar heilögum kaleik hjá mér, – og reyndar mörgum af minni kynslóð.“

Viðtalið við Óttar Proppé má lesa í heild sinni í helgarblaði DV

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.